top of page
Search
  • Writer's pictureLiska ehf.

Útilýsing og vígsluathöfn

Updated: Jun 7, 2023

Við höldum áfram að færa ykkur fréttir af Hallgrímskirkju en í vikunni sem leið lauk fyrsta áfanga í endurnýjun útilýsingar. Verkefnið er framhald af verkefni um heildarendurnýjun lýsingar í Hallgrímskirkju en í fyrri áfanga var innilýsing í kirkjuskipi endurnýjuð. Fjallað var um þann áfanga hér.

Mynd 1: Stuðlar Hallgrímskirkju baðaðir íslensku fánalitunum í ljósaskiptunum. Ljósmynd: Örn Erlendsson

Vígsluathöfn

Næstkomandi fimmtudag, nánar tiltekið 27. október, klukkan 19:30 verður formleg vígsluathöfn þar sem öllum sem hafa áhuga er boðið í stutta athöfn inni í kirkju. Í athöfninni gefst áhugasömum tækifæri á að upplifan nýjan ljósheim inni í Hallgrímskirkju auk þess að sjá kirkjuna baðaða lifandi ljósum að utan.


Lesa má nánar um vígsluathöfnina á heimasíðu Hallgrímskirkju, hér.

Myndir 2 og 3: Myndir af framhlið kirkjunnar og innan úr kirkjuskipinu. Ljósmyndir, Örn Erlendsson.


Undirbúningur og verkleg framkvæmd

Hönnun og undirbúningur verklegrar framkvæmdar fór fram samhliða innilýsingunni en það voru lampar frá ítalska framleiðandanum Griven sem voru valdir í verkefnið fyrir útilýsinguna. Luxor var tengiliður hér á Íslandi við ítalska lampaframleiðandan auk þess sem Luxor aðstoðaði Lisku við uppsetningu og grunnforritun stýrieininga og veitti almenna ráðgjöf.


Verkleg framkvæmd hófst í lok ágúst 2022 og var unnin samhliða framkvæmdum inni í kirkjunni. Þá var kirkjan girt af að hluta en kirkjunni haldið opinni fyrir almenning. Fagraf sá um verklegu framkvæmd en líkt og í fyrri áfanga er það meðal annars góðri skipulagsvinnu og frábæru lausnarmiðuðu samstarfi allra hlutaðeigandi aðila að svo vel tókst til.


Hugmyndafræðin

Mynd 3: Ljósagrúppur. Ljósmyndir, Örn Erlendsson.

Markmiðið með útilýsingunni var að draga fram glæsilegan arkitektúr kirkjunnar og gera kirkjuna að enn sterkara kennileiti. Kirkjan sést vel úr öllum áttum en fram til þessa hafði kirkjan aðeins verið lýst að framan og lýsingin komin til ára sinna. Það var því mikill heiður að fá það skemmtilega verkefni að endurnýja lýsinguna og finna nýjar leiðir til að draga fram karakter kirkjunnar.


Útilýsingin er frábrugðin innilýsingunni að því leyti að í öllum tilfellum er verið að lýsa neðan frá og upp og á mun stærri fleti heldur en inni í kirkjunni. Sú ákvörðun var tekin að lýsa hvergi úr staur og gera alla lampa eins ósýnilega og mögulega hægt væri.


Lýsing á framhlið kirkjunnar er úr jörðu og var þess gætt að velja lampa sem lágmarka glýju en ná samt að lýsa upp allan turninn. Samskonar lampar eru notaðir til að draga fram steinbogann í kringum inngang kirkjunnar og er samspil glerlistaverksins og steinbogans nú virkilega skemmtilegt. Þá var einnig komið fyrir lömpum í hliðarvængjum, gluggabilum, hliðum turns og þaki. Um leið og múrviðgerðir á aftasta hluta kirkjunnar er lokið munu lampar vera settir upp til að draga fram gluggabil og hvelfingu á kórnum. Gert er ráð fyrir að þeim framkvæmdum ljúki næsta sumar eða haust. Þegar því er lokið mun kirkjan sannarlega njóta sín úr öllum áttum.


Stýringar

Notast er við DMX kerfi til að stýra lýsingunni en það opnar á mikla möguleika. Eins og sýnt er á mynd 3, er lýsingunni skipt upp í hópa eftir því hvaða flöt er verið að lýsa. Þó svo vissulega megi stýra hverjum og einum lampa fyrir sig eru þessir hópar notaðir til að skapa dýpt og undirstrika form og áferð kirkjunnar. Almennt er notast við 4000K lýsingu til að lýsa kirkjuna en allir lampar eru RGBW sem gerir það að verkum að stilla má lýsingu í mismunandi liti í takt við kirkjuárið, tilefnisdaga og sérviðburði. DMX kerfið gerir það jafnframt að verkum að hægt er að útbúa lifandi ljósasenur. Þannig má til dæmis láta lýsingu dansa á kirkjunni líkt og norðurljós á næturhimni eða hlýlegur arineldur, svo fátt eitt sé nefnts. Sem dæmi verður framvegis notuð lifandi lýsing á áramótum en við kvetjum þá sem tækifæri hafa til að mæta fyrir utan Hallgrímskirkju klukkan 23:59 á gamlárskvöld og telja niður áramót.


Lýsingin er að mestu leyti sjálfvirk með möguleika á að virkja senur handvirkt eða bæta við nýjum senum eftir þörfum. Miðnæturdimming er jafnframt forrituð í lýsinguna til að draga úr styrk hennar og jafnvel slökkva yfir nóttina þegar fáir eru á ferli. Er þetta fyrst og fremst gert til að draga úr ljósmengun, orkunotkun og lengja líftíma lampanna.


Myndir 4 - 7: Framhlið kirkjunnar böðuð litalýsingu. Ljósmyndir: Örn Erlendsson.


Heppnir vegfarendur kunna að hafa tekið eftir því í síðustu viku þegar verið var að gangsetja og forrita útilýsinguna. Þá komu í ljós ýmsar útfærslur á lýsingunni en á myndum 8 til 13 má sjá dæmi um þetta. Nú er bleik lýsing látin loga í takt við Bleikan Október.


Myndir 8-13: Mismunandi litasenur. Ljósmyndir: Örn Erlendsson


Við fögnum því að geta deilt með ykkur afurð vinnu okkar og samstarfs í þessu skemmtilega verkefni og óskum öllum til hamingju með þetta "nýja" kennileiti.


Mynd 14: Nærmynd af glerlistaverki. Kirkjan böðuð fjólublárri lýsingu. Ljósmynd, Örn Erlendsson

Búnaður og stjórnkerfi

Lýsingarbúnaður í verkefninu er sem áður segir allur frá Griven og er allur LED. Notast er við Dune, Capital, Jupiter og Parade kastara ásamt fylgihlutum. Lýsingu er stjórnað með Pharos DMX stýrieiningu. Almenn lýsing og aðrar senur eru almennt sjálfvirkar en senur eru einnig aðgengilegar í gegnum Pharos snertiskjá.

Mynd 15: Lampabúnaður frá Griven. Myndir, Griven

Teymið á bak við verkefnið


Verkkaupi

- Hallgrímskirkja


Liska ehf

- Guðjón L. Sigurðsson: hönnunarstjórn, prófanir og innkaup

- Örn Erlendsson: aðalhönnuður, verkefnastjórnun, eftirlit og stillingar

- Katerina Blahutova: DMX forritun og hönnun ljósasena

- Steinunn Harpa Einarsdóttir: Tækniteiknun

- Erling Þorgrímsson: lýsingarútreikningar, innkaup og prófanir


Verktakar

- Fagraf ehf: Pétur Elvar Birgisson: verkefnastjóri raflagnavinnu, niðurtekt, uppsetning o.fl.

- Verktækni: jarðvinna og hellulögn


Búnaður

- (Luxor) Alfreð Sturla Böðvarsson: sölustjóri og tengiliður við lampaframleiðanda

- (Luxor) Vignir Örn Ágústsson: Aðstoð með DMX forritun

- Griven, lampaframleiðandi

- Pharos Architectural Lighting Controls


Aðrar upplýsingar og tengiliðir


Nánar er fjallað um verkefnið á verkefnavef Lisku.


Tengiliðir verkefnis: Örn Erlendsson (orn@liska.is) og Guðjón L. Sigurðsson (gudjon@liska.is)

Tengiliður verkkaupa: Sigríður Hjálmarsdóttir (sigridur@hallgrimskirkja.is).

129 views0 comments

Recent Posts

See All

コメント


bottom of page