top of page

Ljósvistarstefna Reykjavíkur

  • Writer: Liska ehf.
    Liska ehf.
  • 13 minutes ago
  • 1 min read

Þann 16. desember sl. samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur ljósvistarstefnu þar sem mótuð er skýr stefna og markmið um borgarlýsingu sem bætir lífsgæði og öryggi, verndar myrkurgæði, minnkar ljósmengun og dregur fram sérkenni borgarinnar með aðgerðaráætlun sem tryggir markvissa innleiðingu.


ree

 

Borgarlýsing er samheiti yfir alla útilýsingu í borgarumhverfi, þar á meðal götu- og stígalýsingu, lýsingu á opnum svæðum, skólalóðum, íþróttasvæðum, bílastæðum, kennileitum, listaverkum og í undirgöngum, sem og flóðlýsingu á mannvirki.

 

Ljósvistarstefna Reykjavíkur verður innleidd af umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar í samvinnu við fagaðila. Stefnan og leiðbeiningar gilda í allri hönnun og framkvæmd. Aðgerðaáætlun með tímasetningum, mælikvörðum og ábyrgðarskiptingu fylgir stefnunni. Forgangsröðun verður endurskoðuð árlega, árangur metinn reglulega, og heildarendurskoðun mun fara fram á fimm ára fresti til að tryggja að stefnan sé í takt við samfélagsþarfir, tækniframfarir og sjálfbærnimarkmið borgarinnar.

 

Ljósvistarstefnan er afrakstur vinnu stýrihóps sem byggði á þverfaglegri nálgun með aðkomu fagaðila á sviði lýsingarmála í samstarfi við Reykjavíkurborg.  Liska hefur tekið þátt í þessari vinnu frá upphafi og á talsvert stóran þátt í gerð stefnunnar eins og fram kemur í henni.

 

Stefnan er ætluð þeim sem skipuleggja, hanna, framkvæma og viðhalda borgarlýsingu, auk borgarbúa, gesta, fyrirtækja og menningarstofnana sem nýta og upplifa hana.

 

Framtíðarsýnin með ljósvistarstefnunni er meðal annars að lýsingin skapi öryggi og aðgengi, hlýlegt borgarrými og styðji við vellíðan íbúa og gesta. Borgarlýsing sé jafnframt staðbundin og endurspeglar sérkenni hverfa, menningu og náttúru borgarinnar, þannig að hvert svæði njóti sín með sínum sérkennum.



 
 
bottom of page