Alþjóðlegu lýsingarverðlaunin Darc awards voru haldin í London í gær (30. mars) við hátíðlega athöfn. Þetta eru ein virtustu lýsingarverðlaun í bransanum en líkt og á hverju ári voru fjöldi verkefna af öllum stærðum og gerðum, alls staðar að úr heiminum sem kepptu um verðlaunin í ýmsum flokkum svo sem "Structures", "Places", "Spaces", "Art Event", og"Kit".
Alþjóðleg dómnefnd skipuð sérfræðingum og fagaðilum úr lýsingarbransanum velur tilnefningar (e. shortlist) úr innsendum verkefnum í öllum flokkum en svo er það í höndum lýsingarhönnuða, arkitekta, og innanhúshönnuða að kjósa verkefnin sem standa upp úr og að sjálfsögðu er ekki hægt að kjósa sitt eigið verkefni. Lesa má um öll tilnefnd verkefni á heimasíðu Darc awards.
Að fá tilnefningu í þessum virtu verðlaunum er virkilega góður árangur. Við erum því gífurlega stolt að segja frá því að við fengum ekki aðeins tilnefningu heldur náðum við öðru og þriðja sæti í tveimur flokkum fyrir verkefnið okkar í Hallgrímskirkju. Í flokknum "Structures - High budget" vorum við meðal 24 tilnefndra verkefna og lentum við í þriðja sæti fyrir utanhúslýsingu og í flokknum "Places" High budget" vorum við meðal 32 tilnefndra verkefna þar sem við lentum í öðru sæti.
Í báðum flokkum voru virkilega flott verkefni sem enduðu ofar en við og óskum við þeim innilega til hamingju með árangurinn. Í "Structures - High budget" var það Kínverska lýsingarhönnunarstofan Pro Lighting Consultant með verkefnið "Ice Cube" í Kína sem vann og í öðru sæti var verkefnið "Capita Spring" frá lýsingarhönnunarstofunni Nipek frá Singapúr. Í "Places - High budget" var það Ítalska lýsingarhönnunarstofan Studioillumina di Adriano Caputo með verkefnið "Basilixia Cistern Yerebatan Sarnici" í Tyrklandi. Allt eru þetta verðskuldaðir sigurvegarar.
Við erum himinlifandi með góðar móttökur og jákvæða athygli sem verkefnið hefur fengið og fögnum því að hafa bætt fleiri viðurkenningum í safnið en við höfum áður sagt frá því að Hallgrímskirkjuverkefnið vann fyrir stuttu til verðlauna á LIT lighting design awards og erum við einnig tilnefnd í Casambi awards.
Árangur okkar með verkefnið í Darc awards og öðrum keppnum er vitaskuld mikil viðurkenning fyrir okkur, verkkaupa og alla sem komu að verkefninu. Við hetjum við alla sem ekki hafa haft tækifæri til að upplifa endurbætta lýsinguna Hallgrímskirkju með eigin augum að gera það. Hér fyrir neðan er samansafn nokkurra mynda sem sýna möguleikana sem nýja lýsingarkerfið hefur upp á að bjóða.
Myndir af utan- og innanhúslýsingu í Hallgrímskirkju. Ljósmyndir: Örn Erlendsson
Nánar má lesa um verkefnið á heimasíðunni okkar www.liska.is.
Tengiliður verkefnis er Örn Erlendsson / orn@liska.is
Comments